Rekstrarafkoma ríkissjóðs var neikvæð um 119 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við 121 milljarða halla á sama tíma í fyrra. Fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir 145 milljarða halla á fyrri helmingi ársins og því varafkoman 27 milljörðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Afkomubatinn skýrist af sterkari tekjuvexti en búist hafði verið við,“ segir í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. „Er þessi tekjuvöxtur að miklu leyti drifinn áfram af efnahagsbata sem hefur verið umfram væntingar við samþykkt fjárlaga í lok síðasta og árs og gerð fjármálaáætlunar á vormánuðum. Er þetta ekki síst raunin á öðrum fjórðungi ársins.“

Tekjur ríkissjóðs reyndust 57,8 milljörðum meiri á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Aukningin er því 16,8% milli ára en skýrist að stórum hluta af áhrifum Covid-19 tengdra frestana skattgreiðsla á innheimtu ríkissjóðs. Leiðrétt fyrir áhrifum frestana voru tekjur ríkissjóðs um 37 milljörðum hærri en á sama tímabili í fyrra og nemur aukningin um 10%.

Tekjur af sköttum og tryggingagjöldum voru 24,6 milljörðum meiri á fyrri helmingi ársins en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga. Ef leiðrétt er fyrir áhrifum frestana er tekjuvöxturinn 4,6% milli ára. Ef litið er til einstakra tekjustofna ríkissjóðs skilaði tekjuskattur einstaklinga tæplega 7,5 milljörðum meiri tekjum á fyrri helmingi ársins en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga.

Ríkisútgjöld á fyrri hluta ársins námu 508 milljörðum króna, lítillega hærra en áætlað var, en gjöld vaxa um 16% milli ára.
„Aukningu gjalda má einkum rekja til aðgerða sem ráðist hefur verið í til að mæta áhrifum Covid-19. Þannig hafa t.a.m. útgjöld, á milli ára, í sérfræðiþjónustu og hjúkrun aukist um tæp 29% að auki við 11% hækkun til hjúkrunar- og dvalarrýma, útgjöld til lyfjakaupa hækkað um 20% og ríflega 39% meira verið sett í húsnæðisstuðning, svo fátt eitt sé nefnt.“

Áhrif Covid á ríkisskuldir mun minni en óttast var

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að með hliðsjón af afkomuþróuninni sem af er ári og vísbendingum sem felast í endurskoðuðum efnahagsspám eru líkur á að afkoma ríkissjóðs fyrir árið í heild sinni og afkoman á næsta ári verði betri en vænst var í fjármálaáætlun.

Framvindan á tímabili fjármálaáætlunar gæti því orðið nærri þeim bjartsýnu sviðsmyndum sem birtar hafa verið. Þá bendir ráðuneytið einnig á sölu ríkissjóðs á 35% eignarhlut í Íslandsbanka fyrir 55 milljarða króna og segir að verðmæti eigna ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi hækkað verulega.

„Að öllu öðru óbreyttu verður lánsfjárþörf ríkissjóðs því minni sem þessu nemur og áhrif faraldursins á skuldahlutföll ríkissjóðs að verða mun minni en óttast var í fyrstu.“

Útlit sé fyrir að skuldastaða ríkissjóðs á mælikvarða laga um opinber fjármál í lok árs 2021 verði um það bil 35% af VLF í stað rúmlega 37% af VLF í gildandi fjármálaáætlun.