Ef frá eru taldir svokallaðir óreglulegir liðir var afkoma ríkissjóðs jákvæð um níu milljarða króna árið 2013 og batnar um 20 milljarða milli ára, að því er fram kemur í nýjum markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka.

Uppgjör ríkisreiknings fyrir 2013 var birt í síðustu viku og var afkoman mun betri en gert hafði verið ráð fyrir. Heildarjöfnuður ríkissjóðs var neikvæður um 732 milljónir króna á árinu, en gert var ráð fyrir 19,7 milljarða tekjuhalla í fjáraukalögum.

Samkvæmt Greiningardeild Arion banka hafa óreglulegir liðir, sem ekki snerta beint rekstur ríkissjóðs, mikil áhrif á afkomu ársins eins og svo oft áður. Þannig leiði 25 milljarða tekjufærsla vegna eignaaukningar ríkissjóðs í Landsbankanum hf. til mun betri niðurstöðu en ella. Ekki sé þó hægt að byggja ríkisrekstur á slíkum einskiptis aðgerðum til framtíðar.

Ef óreglulegir liðir sem þessi eru teknir út fyrir sviga kemur í ljós að afkoman hefur batnað jafnt og þétt síðustu fimm ár og var tæplega 120 milljörðum betri árið 2013 en árið 2009.

Stærstu tekjustofnarnir yfir áætlun

Í markaðspunktum Greiningardeildarinnar kemur einnig fram að greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins vekji vonir um góða afkomu 2014. Að frátöldum óreglulegum liðum sé rekstur ríkissjóðs nánast á sléttu á fyrsta helmingi ársins.

Að sögn Greiningardeildarinnar liggur ástæðan fyrir góðu uppgjöri fyrst og fremst í því að stærstu tekjustofnar ríkissjóðs eru yfir áætlun. Þannig eru tekjuskattar á lögaðila 29% yfir áætlun, tekjuskattur á einstaklinga 5,6% yfir áætlun og tryggingagjöld 2,3% yfri áætlun.