Samanlagður hagnaður innlendra lánastofnana nam 40,5 milljörðum króna á síðasta ári og dróst saman um 22% frá fyrra ári eða um 11,7 milljarða. Þetta kemur fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins yfir heildarniðurstöður ársreikninga ársins 2018 hjá fjármálafyrirtækjum sem gefin var út í síðustu viku. Með fjármálafyrirtækjum er hér átt við viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða en ekki er litið til annarra fjármálafyrirtækja eins og t.d. tryggingafélaga. Ársreikningar fyrir 9 lánastofnanir af 14 eru gerðir í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) á meðan hinir 5 eru gerðir samkvæmt reglum um reikningsskil lánastofnana. Því ber að hafa í huga að reikningsskil samkvæmt framangreindum tveimur reglum eru því fullkomlega sambærileg varðandi marga liði.

Hagnaður viðskiptabankanna fjögurra, Arion banka, Íslandsbanka, Landsbankans og Kviku banka, nam samtals 39,4 milljörðum og dróst saman um 20% milli ára. Tekið skal fram að hér er litið til samstæðureikningsskila bankanna sem gerir það að verkum að afkoma dótturfélaga er talin með ýmist til hækkunar eða lækkunar á afkomu samstæðunnar. Eins og áður hefur verið fjallað um dróst hagnaður allra stóru viðskiptabankanna þriggja saman á síðasta ári en mestur var munurinn þó hjá Arion banka þar sem hagnaður dróst saman um 46% milli ára eða um 6,6 milljarða. Á sama tíma jókst hagnaður Kviku um 10% milli ára en hann fór úr 1.591 milljón króna í 1.752 milljónir.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum jókst hagnaður sparisjóðanna fjögurra talsvert á síðasta ári. Nam hagnaður sjóðanna samtals 370 milljónum króna og tæplega fjórfaldaðist á milli ára. Mestur var munurinn hlutfallslega hjá Sparisjóði Höfðhverfinga þar sem hann jókst úr rúmlega milljón í 62 milljónir en hagnaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga jókst hins vegar mest í krónum talið eða um 101 milljón milli ára.

Afkoma fyrirtækja sem flokkuð eru sem lánafyrirtæki o.fl. nam samtals 938 milljónum króna og dróst hagnaður þeirra saman um 80% á milli ára. Munar þar sérstaklega um að afkoma Borgunnar versnaði um 1,3 milljarða milli ára, afkoma Íbúðalánasjóðs um tæplega 1,7 milljarða og Lykils fjármögnunar um 855 milljónir. Á sama tíma jókst afgangur Byggðastofnunar um rúmar 13 milljónir milli ára, hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga um 80 milljónir auk þess sem afkoma Valitor batnaði um 14 milljónir milli ára en félagið skilaði þó 432 milljóna króna tapi. Þessu til viðbótar minnkaði tap Kortaþjónustunnar um rúma 1,3 milljarða á milli ára það er eina félagið sem skilgreint er sem greiðslustofnun í skýrslunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .