Afkoma ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins var neikvæð um 115 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningu frá Stjórnarráðinu og Fjársýslu ríkisins er það í samræmi við væntingar.

Upphafleg áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir 48 milljarða króna halla á tímabilinu en Covid-19 feykti því plani út í veður og vind. Tekjur voru 38 milljörðum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir og þá voru útgjöld upp um 30 milljarða króna, þá aðallega vegna atvinnuleysis- og hlutabóta.

Tekjur tímabilsins námu 350 milljörðum króna sem er á pari við það sem uppfærðar spár ráðgerðu. Tekjuskattur var 12 milljörðum lægri en búist var við, virðisaukaskattur 13 milljörðum undir áætlun og tryggingagjaldið niður um sex milljarða. Þá var greiðslu skatta fyrir 11 milljarða króna frestað.

Gjöld fyrir fjármagnsliði voru 442 milljarðar sem er milljarði lægra en uppfærðar áætlanir miðuðu við. Fjármagnsjöfnuður var neikvæður um 24 milljarða króna en fjármagnstekjur voru 33 milljarðar króna. Það er 29 milljörðum króna yfir áætlunum. Fjármagnsgjöld námu 57 milljörðum króna, 29 milljörðum yfir áætlun. Bæði má rekja til gengismunar.

Fjárfesting tímabilsins var rúmir 13 milljarðar króna sem er um fimm milljörðum innan heimilda. Þar af eru framkvæmdir Vegagerðarinnar tvo milljarða fyrir innan og bygging nýs sjúkrahúss um milljarð króna.

Eignir í lok júní nema samtals 2.373 milljörðum króna, skuldir samtals nema 2.038 milljörðum og eigið fé nam 336 milljörðum króna. Handbært fé í lok júní var 355 milljarðar króna og hækkar um 113 milljarða.