Mosiac skilaði 1,4 milljón punda hagnaði fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi reikningsárs félagsins sem hófst 29. janúar síðastliðinn. Þetta er lítillega verri afkoma en á sama tímabili í fyrra en þá nam hagnaðurinn 1,5 milljónum punda.

Hagnaður eftir skatta nam 0,6 milljónum punda samanborið við 0,9 milljónir á sama fjórðungi fyrir ári síðan og versnaði því um þriðjung. Í tilkynningu frá félaginu kemur þó fram að sami fjórðungur fyrir ári síðan hafi verið óvenjulega góður.

Framlegðarhlutföll voru mjög svipuð milli ára. Þannig hækkuðu tekjur að frádregnu kostnaðarverði seldra vara úr 62% í 63% milli ára sem hlutfall af tekjum. EBITDA sem hlutfall af tekjum nam 13,6% á móti 14,9% á sama tímabili í fyrra.

Á fyrsta ársfjórðungi voru opnaðar 8 nýjar verslanir og 26 nýjar sérleyfisbúðir í Bretlandi og Írlandi. Mikill vöxtur var á merkjum Oasis, Coast og Whistles miðað við sama fjórðung í fyrra. Söluvöxturinn hjá Coast var mestur eða 37%, sala Whistles jókst um fjórðung og sala jókst um 10,3% hjá Oasis. Salan hjá Karen Millen dróst saman um tæpt prósent en það var vegna vandamála í birgðakeðju félagsins. Þau vandamál hafa verið leyst og hefur félagið gert ákveðnar umbætur sem eiga að tryggja það að slíkt komi ekki upp í framtíðinni.

Lokið verður við endurfjármögnun Mosiac á yfirstandandi ársfjórðungi. Eftir endurfjármögnun mun veginn vaxtakostnaður lækka um 3,6%. 4

Eftir þennan ársfjórðung er stjórnin fullviss um að sölumarkmiðum um 18% vöxt og 13% vöxt í EBITDA verði náð.