Hagnaður Kviku banka fyrir skatta var á bilinu 3,2-3,3 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt drögum að uppgjöri. Afkoman samsvarar 32,9%-34% árlegri arðsemi á efnislegt eigið fé. „Uppgjörið er talsvert umfram áætlanir samstæðunnar fyrir tímabilið,“ segir í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Félagið hefur hækkað um 3% í fyrstu viðskiptum dagsins.

Hreinar þóknanatekjur samstæðunnar, sem inniheldur TM og Lykil,  námu 1,6 milljörðum á tímabilinu en hreinar vaxtatekjur voru um 1,1 milljarður. Einnig varð jákvæð breyting á virðisrýrnun útlána upp á sem nemur 80 milljónum. Hreinar fjárfestingatekjur á fjórðungnum námu 1,6 milljörðum en þar af vegna TM 1,2 milljörðum. Ávöxtun fjáreigna TM nam 3,6% á tímabilinu.

Samsett hlutfall TM var 83,3% á þriðja ársfjórðungi og frá áramótum 89,1%. Afkoma TM á þriðja ársfjórðungi nam nærri 1,8 milljörðum fyrir skatta.

Rekstrarkostnaður samstæðunnar nam 2,6 milljörðum á tímabilinu sem er um 21% lækkun frá öðrum ársfjórðungi.