Reksturinn gekk alveg prýðilega í fyrra og óhætt að segja að árið hafi verið viðburðaríkt. Seinni hluta ársins 2017 sameinaðist bankinn Virðingu og fór það sem eftir var af 2017 og einnig stór hluti ársins 2018 í það að samþætta reksturinn. Samþættingin gekk mjög vel og seinni hluta árs 2018 vorum við að semja um kaupin á Gamma og kaupin gengu svo endanlega í gegn á fyrra hluta 2019," segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.

Hagnaður bankans á síðasta ári nam tæplega 1,8 milljörðum króna og jókst um 161 milljón frá árinu 2017. Tekjur bankans námu 5,7 milljörðum og jukust um 700 milljónir frá fyrra ári.

„Heilt yfir gekk reksturinn umfram væntingar árið 2018 en afkoman var betri en spáð hafði verið fyrir í byrjun árs og uppfærðum við afkomuspá okkar þegar liðið var á árið í samræmi við það. Í mars árið 2018 var bankinn svo skráður á First North markaðinn hjá Nasdaq á Íslandi og ári síðar á Aðalmarkaðinn," segir Marinó.

Marinó segir að útlit sé fyrir að afkoma ársins 2019 verði enn betri en spár bankans gerðu ráð fyrir í upphafi árs.

„Bankinn er með langtímamarkmið um að ná 15% arðsemi af eigin fé, en það er yfir 23% á fyrri hluta ársins. Eiginfjárhlutfallið er sömuleiðis sterkt og við erum tvisvar sinnum á þessu ári búin að uppfæra afkomuspána til hækkunar. Það er því ekki hægt að segja annað en að reksturinn hafi gengið vel það sem af er ári. Afkoman fyrir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins var tæplega 1,6 milljarðar og við uppfærðum afkomuspá ársins 2019 fyrir skatt upp í 2,9 milljarða. Við erum því að gera ráð fyrir aðeins minni hagnaði á seinni hluta árs. Í upphafi árs vorum við að gera ráð fyrir 2 milljarða hagnaði fyrir skatta og það er því búið að uppfæra spána þó nokkuð mikið."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .