Verðkennitölur íslenska markaðarins benda til þess að hlutabréf séu ódýrari nú en í byrjun árs sé miðað við nýuppfærða afkomuspá greiningardeildar Glitnis

Greiningardeildin segir að vænt V/H gildi (markaðsverð deilt með hagnaði) sé að meðaltali 12,4 og er þá átt við vegið meðaltal út frá markaðsvirði félaganna.

?Til samanburðar var vænt V/H fyrir árið 2006 að meðaltali 13,0 í afkomuspá okkar í byrjun ársins. Þessi lækkun endurspeglar að hluta til væntingar um að afkoman á árinu 2006 verði góð, meðal annars vegna lækkunar á gengi krónunnar. Auk þess hefur hlutabréfaverð lítillega lækkað frá síðustu útgáfu," segir greiningardeild Glitnis.

Samkvæmt afkomuspá Glitnis verður vegin arðsemi eigin fjár að meðaltali 20% í ár hjá fyrirtækjunum sem afkomuspá var gerð fyrir. Til samanburðar áætlaði Glitnir í afkomuspá sinni í byrjun ársins að meðalarðsemi yrði 19,8% á árinu.