Eimskip hækkar afkomuspá sína fyrir árið 2016 eftir besta fyrsta ársfjórðung sinn síðan 2009, en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, jókst um 66,5% síðan á sama tímabili í fyrra. Hagnaður nam 1,8 milljónum evra eða 252 milljónum króna sem er 21,1% hækkun frá því á sama tíma í fyrra.

Að jafnaði skilar fyrsti ársfjórðungur lægstri rekstrarafkomu hjá félaginu, en nú var hún 9,6 milljónir evra eða 1,34 milljarðar kóna. Afkomuspá fyrir árið hefur verið hækkuð í 49 eða til 53 milljónir evra áður var hún áætluð á bilinu 46 til 50 milljónir.

Samþætting í flutningsmiðlun veldur lítilli tekjuhækkun

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eimskip, en jafnframt kemur þar fram að rekstrartekjur fjórðungsins hafi verið 113,3 milljónir evra sem er hækkun uppá 0,5%. Er það skýrt með lækkandi verði í flutningsmiðlun á alþjóðamörkuðum með aukinni samþættingu í greininni.

Þakka þeir árangrinum breytingum á siglingakerfum sem þeir hafa gert til að mæta betur erfiðum aðstæðum yfir vetrarmánuðina, sem ásamt hagræðingaraðgerða og kostnaðaraðhaldi dró úr rekstrarkostnaði á fjórðungnum. Lækkuðu rekstrargjöld að launakostnaði meðtöldum um 3,0% en á sama tíma voru miklar kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga á Íslandi.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 8,1 á þessum fyrsta ársfjórðungi ársins og flutningsmagn í flutningsmiðlun í heildina jókst um 5,9%. Eiginfjárhlutfall félagsins var 59,9% og námu nettóskuldir 33,4 milljónum evra í lok mars.