IFS greining reiknar með góðri afkomu hjá Össuri á síðasta ársfjórðungi síðasta árs en félagið birtir afkomu sína á fimmtudaginn. Spá þeirra er lítillega hærri en áætlun stjórnenda Össurar.

Stjórnendur reiknuðu með 310- 320 milljóna Bandaríkjadala sölu á árinu 2009 (spá IFS 323,8 m.USD) og 58-62 m.USD í EBITDA (spá IFS 63,8 m.USD). Spáin IFS tekur mið af góðu uppgjöri á 3F09 en einnig vegna vísbendinga um að sala hafi verið góð, m.a. í Bandaríkjunum.

Sala stuðningstækja hefur ekki gengið sem skildi undanfarin misseri. IFS segist eiga von á hægum bata þar. Búast má við að nokkurn tíma taki að þróa nýtt sölufyrirkomulag í Bandaríkjunum.

,,Við spáum áfram góðri afkomu í stoðtækjahlutanum. Ný kynslóð af RHEO KNEE hátæknihnénu virðist falla í kramið á helstu mörkuðum sem eru mjög jákvæðar fréttir fyrir Össur. Við spáum 2 m.USD gengishagnaði í fjármagnsliðum vegna breytinga á EUR/USD," segir í spá IFS.