Gylfi Sigfússon á langan feril að baki hjá Eimskip og hefur verið forstjóri félagsins frá maí 2008. Hann hóf feril sinn í flutningageiranum sem framkvæmdastjóri hjá Tollvörugeymslunni hf. áður en hann hélt til Bandaríkjanna árið 1996. Þar var Gylfi meðal annars yfir rekstri Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada þar til hann sneri aftur heim til Íslands árið 2008 og tók við starfi forstjóra. Alls á hann því 26 ára feril að baki í flutningum þar sem hann hefur kynnst öllum hliðum greinarinnar.

Hagnaðurinn í fyrra var 31% meiri en árið á undan. Miðað við uppgjörstölur frá fyrstu níu mánuðum þessa árs hefur uppgangurinn haldið áfram. Hver er skýringin?

„Staðfesta og fókus hefur verið leiðarljós okkar. Eftir að hafa eytt síðustu árum í að styrkja innviði félagsins og ná fram hagræðingu í rekstri er félagið virkilega að njóta þess að flutningsmagn á NorðurAtlantshafi hefur verið að vaxa á árunum 2015 og 2016 og við gerðum einnig breytingar á siglingakerfi félagsins til að auka skilvirkni þess og sveigjanleika. Fyrstu níu mánuðir ársins 2016 fara mjög vel af stað hjá okkur, en helsta skýringin á svo mikilli hækkun EBITDA á milli ára er að rekstrargjöld félagsins drógust saman um 3% á milli ára þrátt fyrir mikla hækkun launakostnaðar. Kostnaðarverð aðfanga, svo sem lækkun á olíukostnaði og sjófrakt frá stóru skipafélögunum, skilar sér í lægra kostnaðarverði. Við höfum einnig verið að grandskoða allan okkar kostnað frá stórum kostnaðarliðum niður í þá smæstu þar sem við virkjum allt fyrirtækið í kostnaðarvitund og það hefur verið að skila mjög góðum árangri.“

Afkomuspáin hækkuð tvisvar á árinu Hefur árið 2016 verið betra en þið bjuggust við?

„Við höfum tvisvar hækkað afkomuspá okkar á árinu þannig að við erum að koma betur út en við þorðum að vona í upphafi ársins. Við höfum gefið markaðnum leiðbeiningar um áætlaða afkomu með birtingu uppgjöra okkar og á milli uppgjöra ef þörf krefur. Þegar við gáfum út uppgjör þriðja ársfjórð- ungs 2016 hækkuðum við áætlaða afkomuspá ársins frá því sem áður hafði verið birt og er áætluð EBITDA nú á bilinu 52 til 55 milljónir evra. Við áætlanagerð notum við hugmyndafræðina sem er á bakvið „Beyond Budgeting“ þar sem við setjum fram bæði áætlun um það hvernig við teljum að ársniðurstaðan verði og einnig hvernig við viljum sjá árið fara. Sem sagt „Forecast and Target“ eða á íslensku væntanleg niðurstaða annars vegar og hins vegar framsýnni áætlun um það hvernig við viljum sjá okkur gera betur og fara fram úr væntanlegri niðurstöðu. Það er mikil breyting á hugsun frá því sem flest fyrirtæki upplifa að setja fram áætlun á haustmánuðum fyrir árið sem er að bresta á og síðan er ekki litið á áætlun aftur fyrr en komið er að áætlun næsta árs. Okkar áætlanagerð er því lifandi allt árið og það eru ótrúlegir kraftar sem leysast þá úr læðingi.“

Hlutabréf ykkar hafa hækkað um tæp 40% á árinu. Gefur það til kynna að frammistaða ykkar hafi verið betri en markaðurinn átti von á?

„Félagið var skráð á Nasdaq Iceland í nóvember 2012 og fór skráningin vel af stað á genginu 208 kr. á hlut. Síðan urðu nokkuð miklar sveiflur í gengi bréfanna á árunum 2013 til 2015 þar sem gengið fór hæst í 281 kr. á hlut í lok mars 2013 en tók síðan að lækka aftur. Gengið hefur verið í verulegum vexti á þessu ári samfara góðum uppgjörum, en fleiri atriði spila líka inn í, svo sem gengi annarra fyrirtækja á markaði, fjármagnshöftin, vaxtastefnan, möguleikar okkar á að vaxa erlendis, framboð á bréfum í Eimskip og eignastaða sjóðanna á hverjum tíma, svo fátt eitt sé nefnt sem einnig stýrir verði bréfa á markaði utan rekstrarárangurs. Miklar sveiflur í gengi geta fylgt því að vera með bréfin skráð, jafnvel án þess að eðlilegar skýringar liggi að baki breytingunum, og markaðurinn er yfirleitt fljótur að refsa þegar á móti blæs í rekstrinum. Styrking rekstrarins hjá okkur undanfarið, fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum og áhugaverð framtíðartækifæri hafa væntanlega átt sinn þátt í auknum vinsældum Eimskips á hlutabréfamarkaði á þessu ári.“

Nánar er rætt við Gylfa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .