Iceland Seafood International (ISI) hefur gefið frá sér afkomuviðvörun. Félagið væntir þess að hagnaður ársins fyrir skatta verði á bilinu 3,8 til 5 milljónir evra, en áréttað er að óvissa sé enn mikil og að margir áhrifaþættir geti hreyft við spánni.

Þegar hálfsárs uppgjör samstæðunnar var birt í lok ágúst var þess vænst að hagnaður ársins fyrir skatta yrði á bilinu 6 til 8 milljónir evra. Sú spá var dregin til baka þegar uppgjör samstæðunnar var birt í síðasta mánuði en vegna mikillar óvissu var beðið með að gefa út nýja spá þar til nú.

Flóknari og dýrari sameining dótturfélaga

Fyrr á árinu tilkynnti ISI um flutning alls reksturs dótturfélagsins Iceland Seafood Barraclough í nýja verksmiðju í Grimsby. Félagið mun þar sameinast rekstri annars dótturfélags, Havelok, undir nafninu Iceland Seafood UK, fyrir árslok. Rekstur Havelok verður fluttur í nýju aðstöðuna fyrir árslok og mun sameiningu dótturfélaganna þar með verða lokið.

Fram kemur í tilkynningunni að sameiningarferlið hafi verið flóknara og kostnaðarsamara en lagt var upp með, auk þess sem ytri aðstæður vegna COVID-19 og óvissu í kringum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, hafi sett strik í reikninginn. Samstæðan er þó bjartsýnt um framtíð hins sameinaða félags vegna nýstárlegrar verksmiðju þess og traustra sambanda við lykilviðskiptavini.

Mikilvægar vertíðir framundan

Í tilkynningunni kemur fram að sóttvarnatakmarkanir á mikilvægum mörkuðum í október hafi haft veruleg áhrif á sölu, sérstaklega í sunnanverðri Evrópu. Sala hafi þó tekið nokkuð við sér eftir að slakað var á takmörkunum síðla nóvembermánaðar, en óvissa verði áfram mikil næstu vikurnar. Verð hafi haldist stöðug á fjórða ársfjórðungi, sem hafi stutt við framleiðni.

Þá segir að vikurnar fyrir jól séu mikilvæg viðskiptatímabil fyrir lykileiningar innan samstæðunnar og munu því hafa áhrif á heildarniðurstöðu ársins. Þannig sé desembermánuður mikilvægur með tilliti til sölu á reyktum laxi í Írlandi og að framleiðsla hafi gengið vel hjá dótturfélögunum þar í landi, Oceanpath og Carr & Sons. Reiknað er með að eftirspurn verði áfram mikil á Bretlandi og Írlandi, og horfur taldar góðar í Írlandi í þessum mánuði, enda hráefnisverð hagstæð.

Loks er vikið að vertíð með argentínskar rækjur sem hófst í síðasta mánuði en framleiðsla hefur verið í takti við væntingar fyrir vertíðina. Fram kemur að sala hafi gengið vel og horfur góður fyrir desember og vertíðina alla.

Heildaráhrif COVID verði 10-12 milljónir evra

Heilt yfir hafa sóttvarnatakmarkanir haft mikil áhrif á rekstur ISI á árinu, að því er segir í tilkynningunni. Samstæðan áætlar þannig að heildaráhrif faraldursins á hagnað ársins fyrir skatta verði á bilinu 10 til 12 milljónir evra.

Meginþorri sölutekna samstæðunnar koma frá veitingarekstraraðilum, sem hafa orðið fyrir miklum áhrifum af faraldrinum. Stærsti hluti heildaráhrifa faraldursins er rakinn til lægri sölu til þessara aðila, en að auki er þess meðal annars getið að verðþróun hafi dregið úr framlegð og að kostnaður hafi aukist vegna hærri birgðastöðu.

Þá kemur fram að samstæðunni hafi tekist að styrkja stöðu sína umtalsvert á þessu krefjandi ári með fjárfestingunni í Iceland Seafood UK, kaupunum á Carr & Sons og sameiningu allrar spænskrar framleiðslu á Barcelona. Jafnframt er bent á að jafnvægi smásölu og sölu til veitingareksturs hafi batnað. Þess er vænst að helmingur framtíðarhagnaðar samstæðunnar verði úr smásölu, samanborið við um þriðjung á síðasta ári.