Nissan, sem er næst stærsti bílaframleiðandi Japan, hefur gefið frá sér afkomuviðvörun. Félagið væntir þess að tapa um 4,5 milljörðum dollara, um 610 milljarðar króna. Þess er vænt að sala félagsins verði sú lægsta í áratug og hafa hlutabréf Nissan lækkað um ríflega 10% í dag.

Illa hefur árað hjá félaginu áður en að heimsfaraldurinn skall á. Síðan dróst sala félagsins saman um tæplega helming milli apríl og júní á þessu ári. Forstjóri félagsins segir að það megi búast við enn frekari samdrætti þar sem faraldurinn sækir í sig veðrið vestan hafs. Ekki verður greiddur út arður á þessu ári.

Tesla sér á báti

Sala og hagnaður bílaframleiðenda hefur almennt dregist verulega saman sökum heimsfaraldursins. Verksmiðjur margra félaga hafa verið tímabundið lokaðar og kaupmáttur neytenda dregist saman. Til að mynda hafa hlutabréf Ford lækkað um ríflega 25% á þessu ári og bréf Nissan um rúmlega 40% á sama tíma.

Rafbílaframleiðandinn Tesla virðist sér á báti en félagið skilaði 104 milljóna dollara hagnaði á öðrum fjórðungi ársins, samanborið við 408 milljóna dollara tap á sama tímabili í fyrra. Bréf félagsins hafa hækkað um ríflega 140% það sem af er ári og tilkynnti félagið um opnun á nýrri verksmiðju í síðasta árshlutauppgjöri.