Origo, áður Nýherji hefur tilkynnt um að félagið stefni í allt að 40 milljóna tap á fyrsta ársfjórðungi, meðal annars vegna aukins kostnaðar við sameiningu og nýtt nafn. Áætlaðar tekjur Origo á fyrsta ársfórðungi eru 246 milljónum lakari á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á sama tíma fyrir ári, það er að þær fari úr 3.996 milljónum króna í 3.750 milljónir.

Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér í gærkvöldi, en þar segir jafnframt að félagið vinni enn að uppgjöri ársfjórðungsins og megi því áætla að tölurnar nú geti tekið breytingum. Uppgjörið sjálft verður svo birt 25. apríl.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, það er EBITDA, er áætlaður um 105 milljónir króna, sem er meira en helmingsminnkun frá því fyrir ári þegar hann nam 242 milljónum króna. Er því tap fyrir tekjuskatt á fyrsta ársfjórðungi ársins áætlað 30 til 40 milljónir króna, en fyrir ári var 70 milljóna króna hagnaður á fyrsta ársfjórðungi.

Lakari rekstrarniðurstöðu má rekja til nokkurra þátta segir í afkomuviðvöruninni:

Meginástæðan er minni vörusala hjá Origo samanborið við fyrsta ársfjórðung 2017 og hækkandi launakostnaður. Í byrjun árs tók félagið upp nýtt nafn og sameinaði tvö innlend dótturfélög við móðurfélagið.

Mikil vinna og kostnaður hefur farið í sameininguna og hefur félagið varið hærri fjármunum á fjórðungnum í markaðsstarf og endurmörkun samanborið við fyrri tímabil. Einskiptiskostnaður á fyrsta ársfjórðungi vegna ofangreinds er áætlaður um 50 mkr.