Olíurisinn Royal Dutch Shell gerir ráð fyrir að niðurfærsla eigna muni nema allt að 4,5 milljörðum dollara á fjórða ársfjórðungi 2020. Enn fremur tilkynnti félagið að gert er ráð fyrir tapi þriðja ársfjórðunginn í röð.

Í frétt WSJ um málið er sagt frá því að tilkynning Shell sé fyrsta vísbendingin um lakan rekstur olíu- og gasframleiðenda sem berjast í bökkum sökum lægra verðs vegna kórónufaraldursins. Verð á hrávörum hefur rétt úr kútnum að einhverju leyti og hefur brent olía til að mynda hækkað um fimmtung á síðustu þremur mánuðum.

Fyrr á árinu afskrifaði Shell tæplega 17 milljarða dollara sem að einhverju leyti má rekja til lægra orkuverðs. Í lok apríl bárust þau tíðindi að Shell hafi í fyrsta skiptið frá seinni heimsstyrjöldinni lækkað arðgreiðslur til hluthafa. Arðgreiðslan var 17 sent á hlut á fyrsta ársfjórðungi en var 47 sent árið áður.