Flugfélagið Qantas varar við að hagnaður félagsins verði minni en spár gera ráð fyrir vegna náttúruhamfara í Japan, á Nýja Sjálandi og í Ástralíu. Flugfélagið hefur þurft að aflýsa flugum frá Ástralíu til Nýja Sjálands og Japan vegna jarðskjálftanna. BBC greinir frá í dag.

Eftirspurn eftir flugferðum til Japans hefur dregist saman frá því að jarðskjálftinn reið yfir þann 11. mars sl. Flugfélagið telur að kostnaður vegna náttúruhamfara kosti félagið um 140 milljónir dollara, jafnvirði um 16 milljarða króna.

Alan Joyce, forstjóri félagsins, segir að aldrei áður hafi svo margar hamfarir átt sér stað á stuttum tíma og að þær hafi allir áhrif á rekstur Qantas. Forstjórinn vísar þar til jarðskjálftanna í Japan og á Nýja Sjálandi og mikilla flóða í Ástralíu.

Þá kyrrsetti félagið allar Airbus A380 vélar sínar í nóvember á síðasta ári, eftir að ein vélanna þurfti að nauðlenda vegna vélarbilunar. Í kjölfarið voru vélarnar, sem eru sex talsins, skoðaðar í öryggisskyni. Talið er að kostnaður vegna þessa nemi um 80 milljónum dala.