Hlutabréf Coca-Cola lækkuðu um 4,5% í morgun eftir að hafa sent frá sér afkomuviðvörun um afkomu félagsins á seinni hluta ársins. Aðstæður á nokkrum af mikilvægustu markaðssvæðum félagsins hafa verið óhagstæðar að undanförnu, sérstaklega í Norður Ameríku og Evrópu þar sem sölutölur hafa verið nokkuð undir væntingum. Gert er ráð fyrir að hagnaður félagsins á seinni hluta ársins nemi á bilinu77 til 82 sentum á hvern hlut samanborið við 99 senta meðalspá greiningaraðila fyrir sama tímabil.

Í Hálffimm fréttum KB banka er benta á að vænt afkoma á þriðja ársfjórðungi skýrir að mestu þetta frávik en á fjórðungnum er gert ráð fyrir 35 til 38 senta hagnaði á hlut samanborið við 54 senta meðalspá greinigaraðila.

Haft er eftir Neville Isdell, forstjóra og stjórnarformanni félagsins, að þessi þróun kalli á sterk viðbrögð í þá átt að koma félaginu aftur á sína réttu braut.

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu nokkuð í kjölfarið á tilkynningu Coca-Cola um að afkoma félagsins yrði undir væntingum markaðsaðila á seinni hluta ársins. Við útgáfu Hálffimm frétta hafði Nasdaq lækkaði um 1,05% , S&P 500 um 0,62% og Dow um 0,67%. Gengi Coca-Cola hefur heldur leitað upp á við frá opnun markaða í dag og stendur nú í 41,11 sem er 4,11% lægra en lokagengi félagsins í gær eins og bent er á í Hálffimm fréttum.