Tap lággjaldaflugfélagsins easyJet á fyrri hluta ársins verður meira en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, segir greiningardeild Kaupþings banka. Miklar hækkanir á eldsneytiskostnaði vega þyngst, en það hefur hækkað um 50% á fyrri hluta bókhaldsárs.

Hlutabréf í easyJet lækkuðu um 3,1% í viðskiptum dagsins.

Afkomuspá fyrir árið í heild helst þó óbreytt.

Það er gert ráð fyrir að taprekstur fyrri hluta ársins komi til með að nema 5,3 milljörðum króna, en hann nam 2,6 milljörðum króna á fyrri hluta ársins 2005.

Einnig er bent á óheppilega tímasetningu páskahátíðanna sem orsök þessa mikla taps, en hún fellur á seinni hluta reikningsárs félagsins, segir greiningardeildin.

Það er gert ráð fyrir að sætaframboð félagsins aukist um 15% á árinu og það er áætlað að hagræðingaraðgerðir skili 3-5% lækkun kostnaðar, áður en tekið er tillit til eldsneytisverðs.