Icelandic Group hefur sent inn í Kauphöllina tilkynningu um að rekstrarniðurstaða á tímabilinu mun verða undir væntingum stjórnenda og mun lakari en rekstrarafkoma þriðja ársfjórðungs 2005.

Helstu ástæður þess eru eftirfarandi:

Væntingar um afkomubata í desember hjá Coldwater í Bretlandi gengu ekki eftir og var áframhaldandi taprekstur þar á fjórða ársfjórðungi.

Talsverður kostnaður við endurskipulagningu hjá Icelandic France var gjaldfærður auk þess sem afkoma af reglulegri starfsemi var slök.

Rekstur rækjufyrirtækisins Ocean to Ocean í Bandaríkjunum gekk illa í fjórðungnum og var afkoma þess neikvæð en gert hafði verið ráð fyrir jákvæðri afkomu hjá félaginu. Helstu ástæður þess eru aukið framboð sem hefur valdið söluminnkun hjá félaginu og verðlækkun á rækjuafurðum á Bandaríkjamarkaði.

Hátt hráefnisverð gerði það að verkum að afkoma framleiðslustarfsemi Icelandic í Asíu var ekki í samræmi við áætlanir.

Lækkun á markaðsverði hlutabréfa Fishery Products International leiðir til um tæplega 200 milljóna króna gjaldfærslu í fjórðungnum.

Unnið er að ýmsum hagræðingaraðgerðum innan samstæðunnar og eru áður birt rekstrarmarkmið félagsins fyrir árið 2006 óbreytt. Samkvæmt þeim eru tekjur áætlaðar 110 ? 120 milljarðar króna og hlutfall rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsgjöld og skatta (EBITDA) 5,5% án gjaldfærslna vegna endurskipulagningar.