Rekstur Icelandic Group samstæðunnar hefur ekki staðist væntingar á fyrstu sex mánuðum ársins aðallega vegna frávika í Bandaríkjunum og kostnaðar vegna samþættingar í starfsemi félagsins. Gengið var frá starfslokasamningi við fyrrum forstjóra Icelandic Group og er kostnaður vegna hans gjaldfærður á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun félagsins til Kauphallarinnar.

Samþætting rekstrar Icelandic Group hf. og Sjóvíkur ehf. stendur yfir og unnið er að heildarstefnumótun sameinaðs félags. Samhliða því er unnið að endurskoðun rekstraráætlana fyrir síðari hluta ársins 2005 auk áætlunar fyrir árið 2006. Gert er ráð fyrir að áætlanir og framtíðarsýn samstæðunnar verði kynntar markaðsaðilum í lok ágúst samhliða birtingu árshlutareiknings 30. júní 2005.

Samkvæmt birtingaráætlun félagsins var gert ráð fyrir að árshlutareikningur 30. júní 2005 yrði birtur 5. ágúst. Vegna samrunavinnunnar hefur verið ákveðið að fresta birtingu fram til 31. ágúst n.k.