Fjármálastjóri bresku stórvörumarkaðskeðjunnar J Sainsbury hefur ákveðið að láta af störfum. Þetta er enn eitt áfallið sem hefur dunið yfir verslunarkeðjuna en margir óttast að síðar í mánuðinum komi þriðja afkomuviðvörunin í röð frá félaginu -- og það aðeins síðan marsmánuði sem verður að teljast heldur vandræðalegt fyrir félagið.

Fjármálastjórinn, Roger Matthews, mun láta af störfum í mars á næsta ári en þá hefur hann starfað í fimm ár hjá félaginu en hann stendur á fimmtugu. Aðeins eru tvær vikur þar til Justin King, forstjóri Sainsbury , mun bæta á fund kauphallaraðila og greina þeim frá rekstrarstöðu félagsins. Þar óttast menn að King grípi tækifærið og komi með þriðju afkomuviðvörunina á árinu.

Haft er eftir Phillip Dorgan, verðbréfamiðlara hjá Panmure Gordon, að þeir eru búnir að endurnýja spá sína um afkomu félagsins og telja nú að hagnaður verði aðeins 205 milljónir punda en áður hafði verið spáð 400 milljón punda hagnaði. Um leið gera menn ráð fyrir að arðgreiðslur verði skornar niður um tvo þriðju.

Þetta er versta viðvörun sem sést hefur hjá verslunarfyrirtæki á markaði í Englandi.

Byggt á vefútgáfu The Daily Telegraph