Afkomuvæntingar fyrirtækja eru mjög svipaðar og fyrir ári síðan, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja. Rúmur helmingur reiknar með svipaðri afkomu á næstu mánuðum, eða 56% samanborið við 52% fyrir ári síðan. 29% reikna nú með batnandi afkomu, miðað við 30% fyrir ári síðan. 12% reikna með versnandi afkomu, miðað við 16% fyrir ári síðan. 3% taka ekki afstöðu, líkt og 2% fyrir ári síðan.

Mikil bjartsýni ríkir meðal rafverktaka og einnig virðist talsverð bjartsýni ríkjandi í iðnaði, ferðaþjónustu og í verslun og þjónustu. 47% rafverktaka (SART) reikna með batnandi afkomu en einungis 4% þeirra reikna með að hún fari versnandi. 32% iðnfyrirtækja (SI) reikna með batnandi afkomu en 10% telja hana muni versna. 29% ferðaþjónustufyrirtækja (SAF) telja afkomu sína fara batnandi á næstu mánuðum en 10% telja hana munu versna. Loks telja 25% fyrirtækja í verslun og þjónustu að afkoma þeirra muni fara batnandi, en 9% þeirra telja að hún muni versna.

Líkt og fyrir ári síðan eru það hins vegar sjávarútvegsfyrirtækin sem skera sig úr hvað varðar slæmar afkomuvæntingar. 27% útgerðarfyrirtækja (LÍÚ) reikna nú með versnandi afkomu en 12% reikna með að hún batni. 23% fiskvinnslufyrirtækja (SF) reikna einnig með versnandi afkomu en 17% þeirra telja að hún muni batna. Loks reikna 22% fjármálafyrirtækja (SFF) með versnandi afkomu á meðan 17% þeirra telja að hún muni batna.

Talsverður munur er á svörum fyrirtækja eftir starfssvæði og virðast fyrirtæki á landsbyggðinni síður reikna með batnandi afkomu en fyrirtæki sem eru með starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu eða landinu öllu, samanber eftirfarandi töflu.