*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 15. október 2020 07:14

Afkomuvöxtur í skugga dómsmáls

Afkoma Útgerðarfélags Reykjavíkur á síðasta rekstrarári jókst um 180% frá fyrra ári þrátt fyrir lægri framlegð.

Ritstjórn
Guðmundur Kristjánsson er aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR) nærri því þrefaldaðist á síðasta rekstrarári, úr 11,5 milljónum evra í 32 milljónir. Afkomuaukningin varð þrátt fyrir að framlegð félagsins drægist saman um 38% milli ára, úr 12.5 milljónum evra í 7,8 milljónir.

Þá kemur fram í ársreikningi að félagið hafi fært upp skuldbindingu, sem við árslok 2019 nam 22,5 milljónum evra, vegna dómsmáls sem félagið tapaði gegn þrotabúi Glitnis fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hin mikla afkomuaukning skýrist að mestu leyti af sölu eignarhluta félagsins í tveimur sölufélögum í Asíu, Seafood Services ehf. og Gjörva ehf., til Brim ásamt sölu fiskveiðiheimilda.

Eigið fé félagsins jókst úr 204,5 milljónum evra í 236,7 milljónir milli ára. Skuldir lækkuðu úr 242,8 milljónum evra í 226,9 milljónir og jókst eiginfjárhlutfall félagsins því úr tæpum 46% í 51%.

Dómnum áfrýjað til Landsréttar

Útgerðarfélagið hefur átt í deilum við þrotabú Glitnis undanfarin ár vegna uppgjörs afleiðusamninga. Þrotabúið höfðaði mál gegn ÚR til innheimtu á 31 afleiðusamningi sem gerðir voru árið 2008. Samningarnir fólu allir í sér framlengingu á eldri samningum sem voru í tapi fyrir ÚR á gjalddaga.

Málið var fyrst höfðað árið 2012 en fellt niður í ársbyrjun 2016 eftir að útvist varð hjá lögmanni þrotabúsins. Málinu var stefnt inn að nýju í apríl 2016. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. mars síðastliðnum er ÚR gert að greiða þrotabúinu liðlega 2 milljónir króna auk dráttarvaxta frá 6. maí 2016 og 12 milljónir í málskostnað. Samkvæmt upplýsingum í ársreikningi ÚR hefur félagið áfrýjað dómi Héraðsdóms til Landsréttar.

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá Runólfi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Reykjavíkur, hefur félagið hætt við að áfrýja dómnum til Landsréttar og hefur félagið þegar greitt þrotabúi Glitnis samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.