Héraðsdómur Reykjavíkur veitti í dag frekari frest til gagnaöflunar fram á haust í máli slitastjórnar Kaupþings gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings-samstæðunnar, og Önnu Lísu Sigurjónsdóttur, konu hans. Fátítt er að slitastjórnir föllnu bankanna dragi eiginkonur fyrrverandi stjórnenda inn í mál sín.

Þetta er eitt nokkurra mála sem slitastjórnin vinnur í gegn Hreiðari og lánum sem Kaupþing veitti honum og félögum sem hann tengdist.

Eftir því sem næst verður komist tengist málið sem tekið var fyrir í dag yfirfærslu á lánum sem Hreiðar fékk hjá Kaupþingi til kaupa á hlutabréfum yfir í einkahlutafélag og tengd atriði. Hreiðar var skráður eigandi að öllu hlutafé einkahlutafélagsins sem bar nafn hans en kona hans var í stjórn þess með honum. Hreiðar stofnaði einkahlutafélagið árið 2006 en færði skuldir sínar inn í það árið eftir. Skuldir félagsins við lánastofnanir námu 4,2 milljörðum króna í lok árs 2007 en voru komnar í sex milljarða í lok árs 2008. Hlutabréf Hreiðar í Kaupþingi voru trygging fyrir lánum hans. Þau urðu hins vegar verðlaus þegar bankinn fór í þrot í október árið 2008.