Takumi er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem hefur átt góðu gengi að fagna að undanförnu í Bretlandi og mun hefja starfsemi í Þýskalandi á komandi mánuðum. Fyrirtækið leiðir saman svokallaða áhrifavalda á samfélagsmiðlum (e. influencers), þ.e. einstaklinga sem eru með yfir 1.000 fylgjendur á Instagram, og fyrirtæki sem eru að leita eftir því að koma vörum sínum á framfæri. Stofnendur fyrirtækisins, Jökull Sólberg og Guðmundur Eggertsson, ræddu við Viðskiptablaðið um breytta tíma á auglýsingamarkaði og áhrif Brexit á nýsköpunarumhverfið í Bretlandi og Evrópu.

Hver er staða Takumi í dag?

„Það eru átta mánuðir síðan varan kom á markað og ég myndi segja að fyrirtækið sé á heilbrigðum stað. Við erum með gott tekjuflæði og framlegð en það er eitthvað sem við þurftum að vinna mikið í og kom ekki af sjálfu sér. Við erum með fjárfesta með okkur í liði og höfum gott bakland til að þróast áfram,“ segir Guðmundur. „Svo er bara Þýskaland fram undan,“ bætirJökull við. „Fólk er mikið að spyrja okkur af hverju við förum ekki bara á markað alls staðar í heiminum en staðreyndin er sú að við erum miðjan á markaðstorgi sem stjórnast af framboði og eftirspurn og við þurfum að tryggja við séum að keyra upp hvorttveggja nokkuð jafnfætis. Það er því þó nokkur orka sem fer í hvert og eitt markaðssvæði,“ bendir Jökull á en Guðmundur bætir þó við að þetta muni verða auðveldara nú en í fyrstu þar sem að einhver af þeim fyrirtækjum sem þeir hafa gert herferðir fyrir munu koma til með að nýta sér þjónustu þeirra í Þýskalandi.

400.000 krónur í aukatekjur

Jökull segir mikið hagræði felast í þjónustu Takumi fyrir vörumerkin enda sjái þeir um öll samskipti við áhrifavaldana. „Eins þurfa áhrifavaldarnir ekkert að pæla í því hvernig þeir fá tækjum þar sem við sjáum um að greiða þeim tveimur dögum eftir herferðirnar. Þetta er klárlega markaður sem þarf góðan millilið og við erum fyrsta fyrirtækið sem er í þeirri stöðu að gera þetta almennilega“, segir Jökull jafnframt. „Stór fyrirtæki eru ekki endilega í sambandi við áhrifavalda á samfélagsmiðlum og vita ekki hvernig þau eiga að hafa samband við þá og hvað sé eðlilegt að borga þeim fyrir myndir sem þeir birta af vörum þeirra. Þau geta því haft samband við okkur og við stillum upp herferð fyrir vörumerkið. Það tekur okkur nokkrar mínútur að fá 50 áhrifavalda til að taka þátt og þeir koma svo og gera sitt, taka myndir og deila,“ segir Guðmundur.

„Eins og staðan er í dag þá getur ákveðinn hópur af fólki aflað sér töluverðra tekna með Takumi. Við erum til dæmis að sjá ungt fólk og námsmenn með flotta Instagram-reikninga sem hafa tekið þátt í nokkrum herferðum hjá okkur og hafa í kjölfarið unnið sér inn um 2.500 pund, eða sem nemur tæpum 400.000 krónum á nokkrum mánuðum. Þetta eru bara svona aukatekjur sem þú færð fyrir að vera skapandi,“ segir Guðmundur. Takumi er í góðu sambandi við marga af notendum sínum og tekur Jökull dæmi um stúlku frá London sem hann hefur átt í samskiptum við í tengslum við fyrirtækið.

„Ég hringdi í hana til að heyra hvað henni fyndist um vöruna þar sem hún hefur verið einn af okkar virkustu notendum. Í upphafi hafði henni fundist varasamt að gefa fyrirtækinu upplýsingarnar sína og þess vegna ákvað hún að stofna sérbankareikning fyrir þær upphæðir sem hún fékk greitt frá Takumi. Þessi reikningur varð síðan að sparireikningum hennar. Hún er á námslánum í London og þegar ég heyrði í henni þá sagði hún mér frá því að hún væri á leiðinni í frí fyrir þennan pening,“ segir Jökull.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.