Ætla má að strandveiðibáturinn Lundey ÞH hafi veitt fyrir 10,8 milljónir króna í sumar. Þetta er aflahæsti bátur strandveiðiflotans með rúm 35,4 tonn. Báturinn er gerður út frá Húsavík og veiðir á svæði C sem nær frá Þingeyjarsveit og austur til Djúpavogshrepps. Aflahæstu strandveiðibátar landsins hafa veitt á svipuðum miðum.

Aflaverðmæti bátsins miðar við að Lundey hafi veitt 31,2 tonn af þorski og 4,2 tonn af ufsa. Ekki liggur fyrir hvar Lundey landaði aflanum en tölurnar miðast við áætlun ef aflinn er seldur á fiskmarkaði.

Fram kemur í Fiskifréttum sem komu út með nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins í gær, að afli strandveiðibáta fari líklega í um 8.670 tonn í sumar og geti heildarverðmæti veiðanna numið 2,6 milljörðum króna.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að mjög misjafnt hafi verið hvað strandveiðibátarnir hafi komist í marga r´ðra í sumar. Þeir sem sigldu oftast fóru í 47 róðra en nokkrir bátar fóru út í aðeins örfá skipti.

Þá segir í umfjöllun blaðsins að meðalafli í róðri hafi verið 543 kíló miðað við óslægt og 11,4 tonn á bát.

Meðalverð fyrir handfæraþorsk í sumar var 321 króna á kílóið. Fyrir kílóið af ufsa fengust að meðaltali 188 krónur.

Meðalaflaverðmæti á bát á fiskmarkaðsverði nam 3,4 milljónir króna, samkvæmt umfjöllun Fiskifrétta.