Átta aflandsfélög í eigu Landsbankans, sem stofnuð voru utan um kauprétti starfsmanna, voru látin kaupa alls 13,2% hlut í bankanum sem gerðu þau samanlagt að næststærsta eiganda hans.

Öll félögin lutu stjórn æðstu stjórnenda Landsbankans án þess að smærri hluthafar, fjárfestar eða eftirlitsaðilar hefðu hugmynd um það, enda var þess aldrei getið í ársskýrslum né tilkynnt um það á markaði.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þar segir orðrétt að „Landsbankinn kom hlutabréfum sem ætluð voru til að mæta skuldbindingum vegna kaupréttarsamninga stafsmanna fyrir í um átta aflandsfélögum og virðist það hafa verið gert í því skyni að komast hjá flöggunarskyldu. Ekki verður annað séð en að öll félögin hafi í reynd lotið sömu stjórn. Þannig var t.d umboðum safnað frá stjórnum allra félaganna, sem voru í höndum lögmanna á aflandssvæðum, til að starfsmaður Landsbankans gæti farið með atkvæðarétt félaganna á aðalfundi bankans vorið 2007. Upplýsingar um þessi stjórnunarlegu yfirráð Landsbankans á félögunum komu ekki fram gagnvart fjárfestum, smærri hluthöfum og eftirlitsaðilum.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .