Gengi krónunnar á aflandsmarkaði hefur styrkst töluvert á undanförnum dögum, samkvæmt genginu sem er birt á Keldunni. Kaupverð evru á aflandsgengi er nú um 227 krónur og sölugengið um 243 krónur. Hefur bilið milli seðlabankagengis og aflandsgengis því dregist nokkuð saman, en skráð gengi evrunnar hérlendis er nú tæplega 164 krónur.

Samkvæmt Keldunni var kaupverð evru á aflandsmörkuðum um 255 krónur þann 17. maí síðastliðinn og söluverð 275 krónur. Það hefur farið lækkandi síðan þá.

Líkt og greint var frá í morgun býðst Seðlabanki Íslands til að kaupa allt að 15 milljarða króna gegn greiðslu í evrum með útboði. Útboðið er liður í losun gjaldeyrishafta og er fyrsta skrefið í áætlun Seðlabankans.

Íslensk verðbréf fjalla um málið í dag og segja það fróðlegt að sjá á hvaða verði fjárfestar séu tilbúnir að selja krónur sínar. „Það verður fróðlegt að sjá á hvaða verði fjárfestar eru tilbúnir að selja krónur sínar, en gengi krónunnar á aflandsmarkaði er mun lægra er skráð gengi seðlabankans og líklegast að verðið muni vera einhvers staðar þar á milli.“