Samkvæmt frétt í Financial Times vonast bandarískir fjárfestar sem eiga miklar aflandskrónueignir eftir því að þau stjórnvöld sem taki við hér á landi eftir kosningar verði þeim hagstæðari.

Líkja Íslandi við Argentínu

Samkvæmt fréttinni eiga fjórir bandarískir sjóðir íslensk ríkisskuldabréf fyrir 1,5 milljarða Bandaríkjadala, sem nemur um 10% af vergri landsframleiðslu.

Sjóðirnir, Autonamy Capital, Eaton Vance, Loomis Sayles og Discovery Capital Management hafa sakað íslensk stjórnvöld um að haga sér eins og Argentína í deilum þeirra á milli, með því að ætla að láta þá taka á sig fjárhagslegt tap.

Hafa sent inn kvörtun til EFTA

Íslensk stjórnvöld vísa slíkum ásökunum á bug og segja að of hröð aflétting gjaldeyrishafta myndi valda hruni gjaldmiðilsins.

Autonomy og Eaton Vance hafa sent inn kvörtun til EFTA og sagt að ákvarðanir stjórnvalda jafngildi mismunun gagnvart erlendum fjárfestum.

Bíða eftir að nýtt fólk komi í ríkisstjórn

„Þegar fjaðrafokinu lýkur og nýtt fólk verður í ríkisstjórn, teljum við að þeir muni horfa öðruvísi á málin. Er þörf á þessum aðgerðum? Er nauðsynlegt að vera svona óbilgjarnir?“ segir Pétur Örn Sverrisson lögfræðingur sjóðanna tveggja.

„Í mínum huga þá er glórulaust fyrir ríkisstjórnina að hafa þetta hangandi yfir sér.“

Ásgeir segir fjárfesta meta stöðuna vel

Einnig ræðir FT við Ásgeir Jónsson hagfræðing sem segir ríkisstjórnina hafa orðið drambláta í kjölfar þess að hafa neytt kröfuhafa föllnu bankanna til að taka á sig umtalsverða skerðingu á kröfum sínum.

„Seðlabankinn og ríkisstjórnin gerði mistök og fylltust of miklu sjálfstrausti um samningsstöðu sína,“ segir Ásgeir. „Fjárfestarnir hafa metið stöðuna mjög vel.“

Bjarni hafnar samlíkingu, ekki hafi verið um greiðslufall að ræða

Síðan segir fréttin að þær skuldir sem erlendu krónueigendurnir ráði yfir nemi um 10% af vergri þjóðarframleiðslu landsins, sem sé þó lækkun frá því að þegar það náði 40% þegar mest var. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafnar samlíkingu við Argentínu.

„Við höfum ekki gert neitt í líkingu við aðgerðir Argentínu, við lentum ekki í greiðslufalli,“ segir Bjarni sem sagði að á fyrri hluta næsta árs myndi Seðlabankinn ákveða hvort hann gæti boðið krónueigendunum betra tilboð.

„Eignir sem nema 10% af VLF er gríðarlega stórt mál, fyrir hvaða þjóð sem er.“