Eftirlitsstofnun EFTA segir íslenska löggjöf um eign á aflandskrónum vera í samræmi við EES samninginn.

Stofnuninni bárust kvartanir um lagasetningu sem eru liður í aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að losa fjármagnshöftin, en stofnunin segir samninginn heimila verndarráðstafanir ef þau glíma við greiðslujöfnunarvanda.

Frjálsir fjármagnsflutningar á ný

„ESA telur meðferð íslenskra stjórnvalda á aflandskrónum til ráðstafana sem samræmast EES-samningnum. Markmið laganna er að skapa grundvöll fyrir frjálst flæði íslensku krónunnar, sem á endanum mun gera Íslandi kleift að taka á ný fullan þátt í frjálsum fjármagnsflutningum,“ segir Frank J. Büchel, sem fer með málefni fjármálamarkaða í stjórn ESA í fréttatilkynningu.

Kvartanirnar byggðust á því að rök íslenskra stjórnvalda og tilvísun í verndarsjónarmið eigi sér ekki stoð vegna núverandi efnahagsástands á Íslandi, en ESA telur ekki að vandinn hafi verið leystur þó efnahagur landsins hafi styrkst á síðustu árum.

„Því sé enn ekki tryggt að ekki verði  óstöðugleiki í kjölfar afnáms hafta. Standi EES-ríki frammi fyrir greiðslujöfnunarvanda eða sé alvarleg hætta á að örðugleikar skapist, hafa stjórnvöld og löggjafinn talsvert svigrúm til að grípa til verndarráðstafana,“ segir í tilkynningunni.

„ESA telur að lagasetningin falli innan þessa svigrúms og hefur því ákveðið að loka málunum.“