Með gjaldeyrisútboðum Seðlabankans hefur staða aflandskróna lækkað um 80 milljarða til viðbótar við þá 120 milljarða lækkun sem varð við Avens-viðskiptin svokölluðu árið 2010. Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi þar sem stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar var kynnt. Nefndin ákvað að hækka vexti um 0,5 prósentur. Hann ítrekaði að ekki stæði til að fækka aflandskrónum með öllu með gjaldeyrisútboðum, heldur fleyta ofan af stöðu þeirra.

Már sagði árangur útboðanna standa undir sínum væntingum, en gæti ekki svarað fyrir aðra. Fleiri útboð eru fyrirhuguð og vel getur verið að þau verði tíðari en hingað til.

„Það sem er að gerast núna í útboðunum er að næst síðasta útboð var fyrsta útboðið þar sem Seðlabankinn var ekki lengur milliliður í útboðunum. Aflandskrónueigendurnir annars vegar og gjaldeyriseigendurnir hins vegar voru að dansa við hvorn annan. Það var hluti af verðmyndunarferli sem ennþá er í gangi og mun halda áfram í næstu útboðum. Það sem gerðist er það að aflandskrónueigendurnir virtust hafa alveg feikilega trú á krónunni. Þeir krefjast gengis alveg upp í álandsgengi og gjaldeyriseigendurnir virðast hafa litla trú á krónunni því þeir fóru alveg upp í 400 [krónur fyrir evru] í sinni kröfu,“ sagði Már.

Hann sagði að seljendur og kaupendur hafi því mæst á litlu bili og lítið hafi farið í gegn. „Núna mætast þær á breiðara bili og meira fer í gegn. Við skulum svo sjá hvernig þetta gengur. Aðalatriðið er ekki það að óheyrilegar upphæðir fari í hverju útboði heldur að þetta [útboðin] haldi áfram og við hleypum þeim óþolinmóðustu út.“