Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur hélt erindi á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um gjaldeyrishöftin. Erindi hans kallaðist „Gjaldeyrishöft til eilífðar?“. Hann sagði enga ástæðu til þess að taka fyrirsögn erindisins ekki alvarlega. Það sýni reynsla annarra ríkja. Hann benti á að meðallíftími gjaldeyrishafta sé yfir tíu ár.

Að mati Yngva var leikurinn ekki hugsaður til enda í október 2008, þegar höftin voru sett á.Þau hafi verið sett á til þess að vernda gjaldeyrisforða, tryggja vöruskipti og forða hugsanlegu greiðslufalli ríkisins. En á þeim tíma hafi ekki legið fyrir hver fjárhæð aflanskróna væri. Líklegt sé að þessar krónueignir hafi verið vanmetnar.

Um nýgerðar breytingar sagði hann að við þær muni forði aflanskróna hækka, þar sem heimild til kaupa á gjaldeyri vegna verðbóta á höfuðstól skuldabréfa fellur niður. Innlendar eignir þrotabúa munu einnig fara vaxandi á næstu misserum og skilaskyla slitastjórna mun stækka aflanskrónustabbann. Fjárhæð þeirra gæti numið á bilinu 500 til 700 milljörðum en Yngvi Örn kallaði þær „nýjar aflandskrónur“.

Hann sagði ólíklegt að gjaldeyrisuppboð Seðlabankans leysi þessa miklu uppsöfnun aflandskróna, og hafi gagnrýnt áætlunina um afnám hafta frá upphafi. Hann telur hana ekki líklega til þess að losa um höftin.

Yngvi Örn sagði raunsæu myndina þá að krónueign erlendra aðila verði ekki greiddar úr landi nema á löngum tíma. Tíminn ráðist af afgangi á viðskiptajöfnuði næstu áratuga, sem skapi fé til endurgreiðslna. Margar leiðir séu til þess að setja aflandskrónurnar í endurgreiðsluferli, til dæmis með skuldabréfi til langs tíma eða árlegt uppboð.

Liggi slík áætlun fyrir, um endurgreiðslur, þurfi afnám hafta að öðru leyti ekki að taka langan tíma, jafnvel aðeins um 3 mánuði.