Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, kynnti frumvarp sitt um losun fjármagnshafta á Alþingi í kvöld. Ef frumvarpið verður að lögum mun Seðlabankinn halda gjaldeyrisútboð í næsta mánuði þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum í evrur.

Aflandskrónueignir eru nú yfir 300 milljarðar króna. Þær aflandskrónueignir sem ekki verða nýttar í fyrrnefndu útboði munu þá enn sæta þeim takmörkunum sem boðaðar eru í frumvarpinu.

Frumvarpið er, eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í kvöld, annað tveggja sem á að losa um gjaldeyrishöft sem hafa verið í gildi í heil átta ár, eða síðan íslenska bankakerfið hrundi árið 2008. Þetta kemur fram á vefsíðu Fjármálaráðuneytisins . Hér má lesa frumvarpið í heild sinni.

Meginefni frumvarpsins er á þessa vegu:

Aflandskrónueignir verða skilgreindar á ný og þær afmarkaðar í auknum mæli miðað við hvernig þær voru skilgreindar áður.

Aflandskrónueignir í formi innistæðna verða fluttar á innlánsreikninga hjá innlendum innlánsstofnunum sem háðir eru sérstökum takmörkunum. Eignir í formi rafrænt skráðra verðbréfa verða fluttar á umsýslureikninga hjá Seðlabanka Íslands á nafni viðkomandi eiganda. Fjármálafyrirtækjum og verðbréfamiðstöðvum er skylt að flytja eignirnar fyrir þann 1. september 2016.

Innlánsstofnunum er þá skylt að ráðstafa sömu fjárhæð og nemur heildarinnstæðum á þeim reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum - þ.e., eru skilgreindar sem aflandskrónueignir - og fjárfesta þeirri fjárhæð í innistæðubréfum hjá Seðlabanka Íslands. Þessi innistæðubréf eru í raun bindiskylda aflandskrónueignanna. Þau bera 0,5% vexti og skulu endurskoðaðir á ársfresti af Seðlabankanum.

Eigendur aflandskrónueigna munu þá hafa eftirfarandi tímabundnar heimildir til úttektar:

  • a) Vegna gjaldeyrisviðskipta við Seðlabankann á viðmiðunargengi, sem er 220 krónur móti evru, til 1. nóvember ársins 2016.
  • b) Vegna illseljanlegra aflandskrónueigna - að því gefnu að eigandi greiði gengismun viðmiðunargengis og opinberu miðgengi krónunnar þann 20. maí  á verðmæti eignarinnar.

Þá munu eigendur aflandskrónueigna hafa eftirfarandi ótímabundnar heimildir til úttektar:

  • a) Vegna kaupa á fyrrnefndum innistæðubréfum Seðlabankans
  • b) Vegna millifærslna milli reikninga sem geyma aflandskrónueignir
  • c) Vegna úttektar að fjárhæð að hámarki 6 milljóna króna
  • d) Vegna áfallinna vaxta, verðbóta og arðgreiðslna

Seðlabankinn mun þá sjá um eftirlit með framkvæmd laganna, ef þau verða að frumvarpi. Í kjölfar lögfestingar frumvarpsins mun Seðlabanki Íslands birta upplýsingar um fyrirhugað gjaldeyrisútboð þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónueignum sínum fyrir evrur og komast þannig hjá þeim takmörkunum sem lagðar eru til í frumvarpinu