Aflaverðmæti í september 2015 var rétt um 12 milljarðar króna, en það er 9,6% minna en það var í september árið áður þegar verðmætið var rúmir 13,3 milljarðar. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Verðmæti uppsjávarafla minnkaði mest, eða um 44,6%. Verðmæti botnfiskafla jókst á sama tíma um 15,5%, eða úr 7,3 milljörðum í september 2014 í 8,4 milljarða í september 2015.

Verðmæti heildarafla frá október 2014 til september 2015 jókst um 11,1% frá árinu áður. Munar þar mest um 9,8 milljarða verðmætaaukningu í botnfiskafla og 3,7 milljarða aukningu í verðmætum uppsjávarfisks.