Aflaverðmæti íslenska fiskiskipaflotans var 20,3% minna á föstu verði í ágúst en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands. Þegar litið er til fyrstu átta mánaða ársins er heildaraflaverðmætið á föstu verði 1% meira en á sama tíma í fyrra.

Í tonnum talið var aflinn 6 þúsund tonnum minni en í ágúst í fyrra en þar af dróst botnfiskafli saman um 10 þúsund tonn á milli ára. Heildarbotnfiskafli var 24 þúsund tonn; þorskaflinn var 9.500 tonn, ýsa 3.500 tonn og karfi 3.600 tonn.

Uppsjávaraflinn nam 83.600 tonnum og jókst um 4.600 tonn á milli ára en flatfiskaflinn dróst saman um 600 tonn á milli ára.