Aflaverðmæti íslenskra skipa á öllum veiðisvæðum nam 133 milljörðum króna árið 2016 og dróst saman um 12,1% frá fyrra ári, að því er kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans . Samdráttinn í aflaverðmæti má að langmestu leyti skrifa á gengisþróun krónunnar en gengisvísitala krónunnar lækkaði um 10,6% milli ára.

Aflaverðmætið hefur ekki mælst eins lágt síðan árið 2010 þegar það nam tæpum 133 milljörðum króna.

Þegar litið er til einstakra tegunda þá hafði loðnubrestur mjög mikil áhrif á breytingu heildaraflaverðmætis milli ára. Aflaverðmæti loðnu lækkaði úr tæpum 10 milljörðum króna niður í 2,7 milljarða eða um 7,3 milljarða króna.

Næst mestu áhrifin voru í aflaverðmæti þorsks en það dróst saman um 3 milljarða króna. Þar á eftir komu karfi með 2,3 milljarða samdrátt og ýsa með 2,2 milljarða króna samdrátt. Af þeim tegundum þar sem aflaverðmætið jókst milli ára voru makríll og norsk-íslensk síld með sitthvorn hálfan milljarð króna.