Verðmæti sjávarafla íslenskra skipa í apríl nam tæpum 11,4 milljörðum króna sem er tæplega 33% aukning borið saman við apríl í fyrra. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar . Verðmæti botnfiskaflans var um 8,3 milljarðar króna og þar af var verðmæti þorskaflans rúmir 4,5 milljarðar. Aflaverðmæti uppsjávartegunda var tæpir 2 milljarðar króna og var að langmestu leyti fyrir kolmunna. Verðmæti flatfiskafla nam tæplega 773 milljónum króna og verðmæti skelfiskafla var 348 milljónir króna.

Á 12 mánaða tímabili, frá maí 2017 til apríl 2018, nam aflaverðmæti úr sjó tæplega 122 milljörðum króna sem er 5 prósentustigum hærra en á sama tímabili árið áður.

Upplýsingar um aflaverðmæti sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum um verðmæti fyrstu sölu landaðs afla sem Fiskistofa safnar saman.