Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 37,4 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2011 samanborið við 36,4 milljarða á sama tímabili 2010. Aflaverðmæti hefur því aukist um 1 milljarð eða 2,8% á milli ára. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Arnar HU, eitt skipa FISK Seafood. (Mynd: Þorgeir Baldursson).
Arnar HU, eitt skipa FISK Seafood. (Mynd: Þorgeir Baldursson).
© vb.is (vb.is)
Þá var aflaverðmæti botnfisks í lok mars orðið 23,3 milljarðar og dróst saman um 15,4% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam tæpum 27,6 milljörðum króna. Verðmæti þorskafla var um 13,8 milljarðar og var samdráttur um 9,6% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam tæpum 3,4 milljörðum og dróst saman um 28,7%. Verðmæti karfaaflans nam 2,8 milljörðum, sem er 27,6% samdráttur frá fyrstu þremur mánuðum ársins 2010. Verðmæti ufsaaflans dróst saman um 14,9% milli ára í 1,2 milljarða.