Aflaverðmæti íslenska fiskveiðiflotans nam 80,5 milljörðum króna króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 10 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra og jafngildir það 14,2% aukningu á milli ára.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nam aflaverðmæti botnfisks 52,2 milljörðum króna, sem er tæpum 65% af heildarverðmætinu. Þetta er 8% aukning á milli ára þegar aflaverðmætið nam 48,4 milljörðum.

Þá nam verðmæti uppsjávaraflans 18,5 milljörðum króna, sem er 37,6% aukning frá í fyrra. Aukningin skýrist að mestu af 13 milljarða króna loðnuafla samanborið við 8,7 milljarða á fyrri hluta síðasta árs.