*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 23. febrúar 2006 10:32

Aflaverðmæti 2005 svipað og árið áður

Ritstjórn

Á tímabilinu janúar til nóvember 2005 var aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 62,9 milljarðar króna sem er svipað og á sama tíma 2004, segir Hagstofa Íslands.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu var 24,1 milljarður og dróst saman um 12%.

Verðmæti aflans sem fluttur er út óunninn jókst hins vegar um 8,1%, nam 6,3 milljörðum og verðmæti afla sem keyptur er á markaði og fluttur út jókst um 13%, var 1,2 milljarðar króna.

Aflaverðmæti sjófrystingar nam 22,3 milljörðum sem er aukning um 16% milli ára.

Verðmæti botnfiskaflans var 43,4 milljarðar sem er tæpum 400 milljónum minna en 2004.

Aflaverðmæti þorsks dróst saman um 12% en verðmæti hans nam 22,7 milljörðum. Verðmæti úthafskarfaaflans dróst einnig saman, nam tæplega 1,7 milljörðum sem er 37% samdráttur milli ára.

Á móti jókst verðmæti ýsuaflans um 19%, náði 8,2 milljörðum króna og verðmæti karfaaflans jókst um helming, var 5,1 milljarður.

Verðmæti síldaraflans var minna í nóvember 2005 en í sama mánuði 2004 en engu að síður nemur verðmætisaukningin á tímabilinu janúar til nóvember 2005, 2,9 milljörðum (73%) og stóð aflaverðmætið í 6,8 milljörðum í nóvemberlok.

Hins vegar hélt verðmæti kolmunnaaflans áfram að dragast saman, nam 1,4 milljörðum sem er 47% samdráttur frá 2004. Verðmæti rækjuaflans var tæpar 800 milljónir og hefur minnkað um 1,2 milljarða milli ára.