Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2004 var aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 30 milljarðar króna samanborið við nærri 31,4 milljarða á sama tímabili 2003. Aflaverðmæti hefur því dregist saman um 4,2% á milli ára eða um 1,3 milljarða króna, á verðlagi hvors árs fyrir sig. Verðmæti botnfiskaflans var 21,4 milljarðar króna og dróst saman um tæplega 200 milljónir króna (-0,8%). Verðmæti þorsks var 14 milljarðar króna og jókst um 1,2 milljarða króna (9,6%).

Í frétt frá Hagstofunni kemur fram að verðmæti ýsuaflans nam 3,2 milljörðum króna og jókst verðmæti hans um 670 milljónir króna (26,1%). Verðmæti karfa var 1,9 milljarðar króna og dróst því saman um 575 milljónir króna (-23,1%) en verðmæti úthafskarfaaflans var einungis tæpar 330 milljónir króna og er það eins milljarðs króna samdráttur á milli ára (-81,4%). Verðmæti uppsjávaraflans nam 5,3 milljörðum króna og dróst saman um rúmar 160 milljónir króna (-3,0%). Þá var verðmæti skel- og krabbadýraafla 946 milljónir króna en var 1.650 milljónir króna á sama tímabili 2003 (-42,7%).

Verðmæti afla í beinni sölu útgerða til vinnslustöðva var á tímabilinu 15 milljarðar króna samanborið við 15,7 milljarða á árinu 2003 og er það samdráttur um 4,7%. Verðmæti sjófrysts afla var 7 milljarðar króna samanborið við 8 milljarða króna á árinu 2003 en þetta er sama upphæð og nemur lækkun verðmæta úthafskarfaaflans á milli ára. Verðmæti afla sem seldur var á fiskmörkuðum til fiskvinnslu innanlands dróst saman um 5,1%, var 4,7 milljarðar króna samanborið við tæplega 5 milljarða króna á sama tímabili 2003. Í gámum var fluttur út ferskur fiskur fyrir 2,8 milljarða króna sem er aukning frá fyrra ári um tæpan milljarð króna (53,2%).

Á Suðurnesjum var unnið úr afla að verðmæti 6 milljarða króna og er það aukning um 248 milljónir króna á milli ára eða 4,3%. Mestur samdráttur milli ára í krónum talið varð á höfuðborgarsvæðinu, 469 milljónir króna eða sem nemur 10%. Verðmæti afla íslenskra skipa sem unninn var erlendis jókst um 800 milljónir og var 2,8 milljarðar króna á fyrstu fimm mánuðum ársins 2004.