Aflaverðmætið hefur dregist saman um 2 milljarða milli ára eða 16%, segir í tilkynningu frá Hagstofunni. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2006 nam aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 10,8 milljörðum króna samanborið við 12,8 milljarða á sama tímabili 2005. Aflaverðmæti botnfisks var svipað og í fyrra eða 7,9 milljarðar króna sem er 3% samdráttur.

Aflaverðmæti þorsks nam 4,9 milljörðum og dróst saman um 4,8% og verðmæti ýsuaflans var 1,4 milljarðar sem er 4,6% samdráttur.

Aflaverðmæti karfa jókst hins vegar um 10,7% og var tæpar 800 milljónir króna fyrstu tvo mánuði ársins.

Töluverð aukning varð í aflaverðmæti flatfisks eða um 39%. Nam aflaverðmæti hans tæpum 800 milljónum. Verðmæti uppsjávarafla dróst saman um 49%, var 2,1 milljarður króna.

Skiptir þar mest dræm loðnuvertíð en aflaverðmæti loðnu nam 1,7 milljörðum króna sem er 2,2 milljörðum minna en á sama tíma í fyrra. Samt sem áður óx verðmæti loðnuhrogna mjög, um rúmar 300 milljónir króna í ár.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu var 4,8 milljarðar króna sem er fjórðungs samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 800 milljónum króna samanborið við 1,1 milljarð í fyrra.

Verðmæti sjófrystra afurða var svipað og 2005. Í ár nam verðmætið tæpum 3 milljörðum og minnkaði um 2%. Á markað til vinnslu innanlands fór afli að verðmæti 1,9 milljarðar sem er því sem næst sama og 2005.

Af einstökum landsvæðum var mest aflaverðmæti tekið til vinnslu á Suðurnesjum eða 2,1 milljarður sem er 13% samdráttur milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu var unnið úr afla að verðmæti 1,9 milljörðum og jókst verðmætið um 8,9% frá fyrra ári.

Hlutfallslega varð mest aukning á aflaverðmæti sem fór til vinnslu á Vesturlandi eða um 16% en þar var verðmæti aflans jafnframt lægst. Langmest dró úr verðmæti afla sem unninn var á Austurlandi eða um 47%.