Heildarafli íslenskra skipa í febrúarmánuði metinn á föstu  verði dróst saman um 5,3% frá sama tímabili fyrir ári síðan samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. Engu að síður er heildarafli frá áramótum óbreyttur miðað við sama tímabil 2006. Í tonnum talið nemur aflinn í febrúar alls 229.596 tonnum samanborið við 214.279 tonn í febrúar 2006.

Botnfiskafli dróst saman um rúmlega 4.600 tonn frá febrúarmánuði 2006 og nam tæpum 44.500 tonnum. Þorskafli dróst saman um 2.700 tonn, ýsuaflinn jókst um 900 tonn og ufsaaflinn dróst saman um rúmlega 1.000 tonn. Flatfiskaflinn dróst saman og var 2.150 tonn. Afli uppsjávartegunda nam rúmum 182.900 tonnum og var allur loðna. Aukning uppsjávarafla nemur tæpum 20.900 tonnum. Skel- og krabbadýraafli var 24 tonn samanborið við 478 tonna afla í febrúar 2006.