Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 52,3 milljörðum króna á fyrstu átta mánuðum ársins 2006 samanborið við 47,7 milljarða á sama tímabili 2005, segir í tilkynningu Hagstofunnar.

Aflaverðmæti hefur aukist um 4,6 milljarða eða 9,7%. Aflaverðmæti ágústmánaðar nam 6 milljörðum en í ágúst í fyrra var verðmæti afla 5,5 milljarðar.

Aflaverðmæti botnfisks var í lok ágúst orðið 39,3 milljarðar miðað við 31,9 milljarða á sama tíma árið 2005 og er því um 23,0% aukningu að ræða. Verðmæti þorskafla var 18,1 milljarður og jókst um 8,4%. Aflaverðmæti ýsu nam 7,7 milljörðum sem er 32,4% aukning og ufsaaflinn jókst að verðmæti um 78,4%, var 3,2 milljarðar. Verðmæti flatfiskafla jókst um 2,6% milli ára, nam 3,9 milljörðum.

Aflaverðmæti síldar dróst saman um 1,9 milljarða eða 46,3% og verðmæti loðnu dróst saman um 54% eða 2,6 milljarða. Aflaverðmæti kolmunna var 3,5 milljarðar samanborið við tæpa 1,4 milljarða í fyrra. Verðmæti rækju í ágústlok var 279 millj. kr. samanborið við 668 millj. kr. í fyrra, sem er samdráttur um 58,3%.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu var 19,8 milljarðar króna sem er aukning um 600 milljónir eða 3,3%.

Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 29,1%, var 8,2 milljarðar. Aflaverðmæti sjófrystingar var 17,5 milljarðar og jókst um 5,5% frá fyrra ári.

Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 5,5 milljörðum sem er 20,2% aukning.