Aflaverðmæti íslenskra skipa var 50,6 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við 52,1 ma.kr. á sama tímabili 2003. Verðmæti aflans hefur því dregist saman um ríflega 1,5 ma.kr. á verðlagi hvors árs, eða um 3% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta stemmir ágætlega við áður birtar aflatölur og verðvísitölur. Þannig hafði t.a.m. verið tilkynnt að aflinn í tonnum á fyrstu níu mánuðunum var 17% minni en í fyrra, aðallega vegna minni loðnuveiði.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að mjög góð síldarvertíð á líðandi ársfjórðungi gæti átt eftir að vinna upp aflaverðmætismuninn við árið í fyrra þegar árið verður gert upp í heild.

Verðmæti botnfiskaflans fyrstu níu mánuði ársins jókst um 1% m.v. sama tímabil í fyrra. Þar af jókst verðmæti þorskaflans um 7,1%, verðmæti ýsuaflans um 30,4% en á móti dróst verðmæti karfaaflans mikið saman, úthafskarfinn um 19,1% og karfinn um 28,5%. Uppsjávaraflinn var 10,2% verðminni á tímabilinu m.v. fyrra ár og verðmæti rækjuaflans dróst saman um 32,6%.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.