Margir óttast að næsta holskefla sem skelli á fjármálafyrirtækja felist í hruni á markaðnum með afleiður í fjármálavafningum sem innihalda skuldatryggingar (e. synthetic collateralized debt obligations).

Fjölmörg gjaldþrot banka víða um heim hafa sett þennan tug billjóna Bandaríkjadala markað í uppnám.

Engar undirliggjandi eignir á borð við skuldabréf eru í afleiðum í þeim vafningum sem innihalda skuldatryggingar. Gerningarnir tengjast hinsvegar stöðum í eignasöfnum og fá af þeim tekjustreymi gegnum skiptasamninga þar sem byggjast á samkomulagi fjárfesta um að taka á sig undirliggjandi gjaldþrotaáhættu.

Slíkir gerningar hafa verið mikið notaðir af fjárfestum víða um heim til þess að dreifa áhættu fjárfestinga sinna án þess að taka beina stöðu í ákveðnum skuldabréfum.

Reyndar hafa vinsældir verið slíkir að verðmæti þeirra trygginga sem ganga kaupum og sölum er mun hærra en andvirði þeirra skuldabréfa sem þeim er ætlað að tryggja.

Mikið er í húfi en samkvæmt The Wall Street Journal er búið að selja fjármálagerninga tengda skuldatryggingum í á bilinu 1,6 til 6 billjónum Bandaríkjadala af útgefnum skuldabréfum.

Þar sem að slíkir vafningar innihalda mikið af skuldatryggingum aðþrengdra fjármálafyrirtækja er markaðurinn með þá í uppnámi. Röð gjaldþrota fjármálafyrirtækja hefur gert það að verkum að verðmæti þeirra hefur fallið mikið.

Eins og fram kemur í umfjöllun The Wall Street Journal þá reyndu þeir bankamenn sem komu að gerð slíkra vafninga að pakka saman skuldatryggingum þeirra banka sem höfðu hlutfallslega hæsta álagið miðað við lánshæfismat: Þannig var hægt að búa til gerninga sem gáfu mikinn arð þrátt fyrir að áhættan sýndist í fyrstu minni en ella. Bandaríska blaðið nefnir skuldatryggingar Lehman Brothers og Glitnis sérstaklega í þessu samhengi.

Ljóst er að þróunin undanfarið hefur grafið undan markaðnum með þessum vafninga. Hvert fjármálafyrirtækið af öðru hefur fallið með einum eða öðrum hætti og fjárfestar flýja þessa gerninga eins og heitan eldinn – enda hafa þeir komist að því að þeir vanmátu áhættuna af þeim.

Fram kemur í The Wall Street Journal er verið að bjóða 50 sent eða minna á dalinn fyrir gerninga sem ekki fyrir löngu höfðu hæsta lánshæfismat. Enda hafa sérfræðingar matsfyrirtækja verið önnum kafnir að undanförnu við endurmeta lánshæfismat fjölda slíkra samninga og óttast er að fjármálamarkaðir taki enn einn skellinn að þeirri vinnu lokinni.

Hugsanlega er það tákn um það sem koma skal að belgíski bankinn KBC tilkynnti í síðustu viku um að hann hefði þurft af afskrifa 1,6 milljarð evra af 9 milljarða evra eignasafni sínu í afleiðum með vafninga skuldatrygginga eftir að Moody’s lækkaði lánshæfismat sumra þeirra samninga sem bankinn hafði gert. Ólíklegt verður að teljast að staða KBC sé afmarkað fyrirbrigði.

Eins og gefur að skilja hefur flótti fjárfesta frá þessum gerningum það í för með sér almennar hækkanir verða á skuldatryggingaálagi fyrirtækja og það leiðir af sér að þau kjör sem þeim býðst á fjármálamörkuðum.

Eins og bent er á beinir sú þróun kastljósinu að veikasta hlekknum á öllum markaðnum með afleiður í skuldatryggingum: Sérhæfðum sjóðum sem byggja á svipaðri og afleiður í vafningum sem innihalda skuldatryggingar fyrir utan að þeir eru gíraðir upp.

Þar sem að þeir eru gíraðir upp er í ákvæðum sjóðanna að þeir verði að loka fari tap þeirra í ákveðið hámark.

The Wall Street Journal hefur sérfræðingum að heildarþróun skuldatryggingaálags á fyrirtæki undanfarið hafi verið á þann veg að það sé einsýnt að þeir verði að loka og selja eignir sínar.

Blaðið vitnar jafnframt í greiningu frá Citigroup að ef að margir slíkir sjóðir falla um svipað leiti gæti það „valdið usla á mörkuðum.”

Það væri þá varla ábætandi.