Í síðustu viku hækkaði staðgreiðsluverð á marijúana í Bandaríkjunum um 6,3% að því er segir í frétt á vefsíðunni 24/7 Wall Street. Kostar pundið af marijúana nú um 2.045 dali. Þar er farið yfir verðþróun á marijúanamarkaði vestra undanfarnar vikur, en athygli vekur hversu markaðurinn er orðinn þróaður, en sala og neysla á marijúana er nú lögleg í þremur ríkjum Bandaríkjanna og þá eru fleiri ríki þar sem neysla á efninu er refsilaus.

Framvirkir samningar um afhendingu á pundi á marijúana í september kosta nú 1.925 dali og hækkuðu um 4% á milli vikna, en verð framvirkra samninga lækkar stöðugt eftir því sem samningurinn er lengri. Pund af marijúana til afhendingar í desember kostar nú 1.385 dali.

Í fréttinni segir að marijúanaverð í Colorado, þar sem sala og neysla er lögleg, sé nú í hærra lagi. Er það vegna þess að uppskerutíminn er nú að hefjast og birgðir því takmarkaðar. Munu birgðir ekki aukast fyrr en uppskerunni er lokið og búið er að þurrka og verka afraksturinn. Þá hefur það áhrif á verðmyndun að marijúanabændur í Colorado hafa þurft að glíma við skordýraplágur í sumar.