Heimsmarkaður með olíu tókst á við skyndilegt hættuástand í kjölfar fellibyljanna Katrínar og Ritu en óvíst er hvort iðnaðurinn ræður við afleiðingarnar, segir í Financial Times.

Samkvæmt nýjum tölum frá IEA (International Energy Agency) splundruðu fellibyljirnir 1,2 milljónum tunna/dag af hráolíuframleiðslu Bandaríkjanna. Þetta hefur dregið úr áætlunum um framleiðslu í ríkjum utan OPEC sambandsins um allt að 300.000-400.000 tunnur/dag í ár og á næsta ári. Því er spáð að olíuframleiðsla Bandaríkjanna verði um 310.000 tunnum á dag minni en áður hafði verið ætlað. Ástæðurnar eru gífurlegar skemmdir í greininni; gildir einu hvort um er að ræða olíusvæðin, leiðslukerfi eða hreinsunarstöðvar.

Ef bornar eru saman tölur í venjulegu árferði sem er laust við náttúruhamfarir sést að eftirspurn eftir olíu á heimsmarkaði í september var minni en árið áður. Nemur lækkunin 980.000 tunnum á dag, í lok þessa mánaðar er gert ráð fyrir að eftirspurn á heimsmarkaði hafi fallið um 290.000 tunnur á dag.

IEA segir að olíumarkaðir hafi aðlagast náttúruhamförunum vel og að góð birgðastaða þeirra hafi virkað sem mótstaða gegn enn frekara hættuástandi. Verð á hráolíu og bensíni eru aftur orðin eins og þau voru fyrir hamfarirnar. IEA segir að þó verði að vinna að því áfram að byggja markaðinn upp og fyrirbyggja gloppumyndanir í rekstri.

Talið er að aukning eftirspurnar í Bandaríkjunum á fjórða ársfjórðungi verði 1,1%, á sama ársfjórðungi í fyrra var spáð 3,4% aukningu. Í skýrslu IEA segir að olíuverð hafi hækkað mikið og að það hafi áhrif á eftirspurnina. Hins vegar hefur gasverð einnig verið hátt og það hefur dregið úr því að fólk skipti olíunni út fyrir gasið. Á heildina litið gæti eftirspurn eftir eldsneyti hafa aukist í kjölfar hamfaranna.