Hlutabréf í japanska rafmagnstækjaframleiðandanum Sanyo Electric Co. hafa fallið mest allra fyrirtækja á markaði Nikkei í Tokyo að undanförnu. Hlutabréf í fyrirtækinu hafa einnig fallið talsvert á markaði í Frankfurt. Hefur fyrirtækið nú skorið verulega niður spá sína um afkomu yfir heilt ár og er nú búist við tapi í kjölfar tjóns sem fyrirtækið varð fyrir í jarðskjálftum sem riðu yfir Japan í október.

Miklar skemmdir urðu á örflöguverksmiðju Sanyo í Niigata í jarðskjálftunum. Í það minnsta 40 manns létu lífið í skjálftunum og hraðlesin til Tokyo stórskemmdist. Er nú gert ráð fyrir að á fjárhagsári fyrirtækisins sem lýkur 31. mars 2005 verði niðurstaðan nettó tap upp á 71 milljarð jena, eða sem svara 682 milljónum dollara. Tapar fyrirtækið um 87 milljörðum jena vegna skemmda af völdum jarðskjálftans og vegna sölutaps af þeim völdum samkvæmt upplýsingum frá höfuðstöðvunum í Osaka. Spá frá því í október gerði hins vegar ráð fyrir 14 milljarða jena hagnaði á árinu. Greint er frá þessu á fréttavef Bloomberg.

Sú staðreynd að loka varð örflöguverksmiðju fyrirtækisins gæti neytt fyrirtækið að mati fjármálasérfræðinga til að endurskipuleggja starfsemina með umtalsverðum niðurskurði.

Beint tjón vegna skemmda á framleiðsluvörum og tækjabúnaði er talið nema um 23 milljörðum jena og ráðgert er að það kosti 27 milljarða jena að endurbyggja verksmiðjuna.

Fyrirtækið er stærsti framleiðandi heims á stafrænum myndavélum. Var gert ráð fyrir því í október að 2,2% vöxtur yrði í sölu fyrirtækisins á stafrænum myndavélum á yfirstandandi fjárhagsári. Þá framleiðir Sanyo ýmis heimilistæki og er nú ráðgert að flytja framleiðslu fyrirtækisins á örbylgjuofnum til dótturfélags í Kína.