Heildartap Advania samstæðunnar eftir skatta árið 2012 nam 1.692 milljónum króna og skýrist af tveimur meginástæðum, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Í fyrsta lagi vegna 858 milljóna króna rekstrartaps í Noregi og í öðru lagi 696 milljóna króna afskriftar á viðskiptavild móðurfélagsins vegna dótturfélagsins í Noregi.

Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar árið 2012 fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 341 milljón íslenskra króna borið saman við 1.068 milljónir árið áður. Reksturinn gekk vel á Íslandi og í Svíþjóð en afkoman í Noregi var mjög slæm og skýrir það að stærstum hluta lækkun á EBITDA samstæðunnar á milli ára. Samanlögð EBITDA fyrir Svíþjóð og Ísland nam 1.057 milljónum króna en EBITDA í Noregi var neikvæð um 718 milljónir króna. Velta samstæðunnar jókst um 5,2% á milli ára og nam 25,8 milljörðum króna á árinu 2012 borið saman við 24,5 milljarða árið áður.

Toyotadómurinn hefur áhrif

Auk þess er skuldbinding vegna ónotaðs húsnæðis samstæðunnar endurmetin og gerð varúðarfærsla vegna eldri skattaskuldbindingar vegna óvissu í kjölfar s.k. „Toyotadóms“ Hæstaréttar, sem úrskurðaði að vaxtagjöld sem falla til vegna sameiningar fyrirtækja séu ekki frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Samtals nema tveir síðastnefndu liðirnir 572 milljónum króna. Eigið fé samstæðunnar nam 1.819 milljónum króna í árslok 2012.

Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar árið 2012 fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 341 milljón íslenskra króna borið saman við 1.068 milljónir árið áður. Í tilkynningunni segir að reksturinn hafi gengið vel á Íslandi og í Svíþjóð, en að afkoman í Noregi hafi verið mjög slæm, eins og áður segir, og skýrir það að stærstum hluta lækkun á EBITDA samstæðunnar á milli ára. Samanlögð EBITDA fyrir Svíþjóð og Ísland nam 1.057 milljónum króna en EBITDA í Noregi var neikvæð um 718 milljónir króna. Velta samstæðunnar jókst um 5,2% á milli ára og nam 25,8 milljörðum króna á árinu 2012 borið saman við 24,5 milljarða árið áður.

Erfiði reksturinn í Noregi er sagður koma til af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna mikils taps á stóru verkefni, sem samið var um árið 2009 og fór í rekstur árið 2012 og mun ljúka á þessu ári, í öðru lagi vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingu starfsmanna og í þriðja lagi vegna kostnaðarsamrar endurskipulagningar, sem ráðist var í til að mæta erfiðum rekstri.